03 janúar 2006


If Christ were here now there is one thing he would not be - a Christian. Mark Twain

Fór að spekúlera í allri þessari umræðu um samkynhneigða sem hefur verið í gangi í þjóðfélaginu um hvort að kirkjan eigi að leyfa hjónavígslur samkynhneigðra. Nú vil ég samt taka það fram að ég er lítið sem ekkert lesinn í Nýja testamentinu. Þeir sem eru á móti vígslunum benda á að það standi skýrum stöfum í Biblíunni að hjónaband sé heilagt samkomulag karls og konu. Þetta sé ekki hægt að túlka á annan hátt. Í Gamla testamentinu er Páll postuli umburðarlyndur gagnvart þrælahaldi. Páll sendi þræl aftur til húsbónda síns og gaf ráð um hvernig þeir ættu að umgangast hver annan. Jesús fordæmdi það aldrei. Í Nýja testamentinu kemur það berlega fram að Jesús fordæmdi skilnaði. Einnig er ýtt undir kynjamisrétti. Í Ephesians 5:22 segir að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum líkt og Guði. Hvernig stendur á því að kirkjunnar menn sniðganga margar kennisetningar Nýja testamentisins? Það er einfaldlega vegna þess að þegar kristilegir siðir og textar Biblíunnar stangast á, þá endurtúlkar kirkjan Biblíuna. Kirkjunnar menn segja þá að textinn hafi einfaldlega verið misskilinn eða vitlaust þýddur eða að annað hafi átt við á vissum tímum eða við vissar aðstæður. Hvernig breytist hugarfar kristinna manna? Gæti það verið vegna þess að kirkjunnar menn fari að upplifa ákveðna mótsögn í því hvað þeir túlka sem kristilegt og þess sem er að gerast í kringum þá? Ef þrælahaldið er tekið sem dæmi, þá fór fólk smám saman að sjá þversögnina sem fólst í því að lifa kristilegu lífi annars vegar og samþykkja þrælahald hins vegar. Breytingar verða ekki vegna deilna um texta Biblíunnar eða kennisetninga, heldur hvernig fólk upplifir það hvað felst í því að vera kristin. Það gerist þegar kirkjan fylgir ekki samfélagsþróuninni. Við heyrum um að illa sé farið með þræla og er misboðið. Við sjáum að dætur okkar hafi takmörkuð tækifæri vegna kynferðis og verðum kvenréttindasinnar. Vinir og ættingjar lenda í skilnaði og verða fyrir barðinu á þröngsýni kirkjunnar. Reynslan, hugarfarið og upplifunin á aðstæðunum er hreyfiaflið á bak við breytingar innan kirkjunnar. Er hræðsla kirkjunnar manna við hjónavígslu samkynhneigðra ekki komin vegna þeir að þeir telja þá grafi það undan grunnstoðum kirkjunnar í raun af svipuðu bergi brotin og tilkoma þróunarkenningarinnar á sínum tíma og að jörðin sé hnöttótt, en ekki flöt? Í eðli sínu er nefnilega kirkjan gríðarlega íhaldssöm. Hvað er það sem stendur eftir þegar er búið að endurtúlka Biblíuna og sníða hana til eftir þörfum hvers tíma? Það er grunnheimspeki hennar um náungakærleik, virðingu og ást. Ég sé ekki að Biblían frekar en aðrar skáldsögur eigi að vera hafin yfir endurtúlkun og gagnrýni. Hversu margir hafa komið að ritum hennar í gegnum aldirnar, ákveðið hvaða köflum á að sleppa og hvað beri að leggja áherslu á? Hvað myndi Jesús sjálfur segja um þessa túlkun? Mér finnst persónulega margt gott í boðskap kristinnar trúar, en að hengja sig í einhverjum smáatriðum eins og hjónavígslu samkynhneigðra út af margyfirfarinni skáldsögu finnst mér einfaldlega vera að ganga of langt. Eftir því sem ég eldist held ég að einlæg trú barna á Guð, án orðskrúðs, málalenginga og án þess að festa sig í smáatriðum Biblíunnar sé farsælust. Ég held að bókstafstrúarmenn séu hættulegustu andstæðingar trúarbragðanna. Þeir spyrja sig aldrei grundvallarspurninga um hefðir og það sem er talið gefið, heldur láta mata sig án þess að beita gagnrýnni hugsun.

Tekið skal fram að höfundur greinarinnar er ekki í Þjóðkirkjunni, en sér þó margt gott við hana.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home