Hef svolítið verið að pæla í því hvort að það sé í raun og veru einhver munur á þessum forsetaframbjóðendum fyrir utan að annar er kona og hinn blökkumaður. Miðað við allar fréttirnar sem flæða yfir okkur frá forkosningum Demókrata í Bandaríkjunum mætti ætla að fólk væri almennt upplýst um hver munurinn á stefnumálum þeirra sé, en það er öðru nær. Þar sem að áherslumunurinn er lítill á milli frambjóðendanna er hamrað á atriðum sem koma kosningunum sjálfum lítið við og eru í meira lagi langsótt. Aðalatriðið eins og svo oft áður í mikilvægum kosningum í Bandaríkjunum er hvort að það sé hægt að hanka hinn aðilann á atriðum sem koma málunum sáralítið við. Eins og að reyna að hanka Obama á ummælum fyrrum safnaðarprestsins hans. Hvernig í ósköpunum getur Obama borið ábyrgð á öllum ummælum prestsins þó að hann hafi verið meðlimur í söfnuðinum hans? Síðan er hamrað á því þegar Hillary Clinton ýkti atburðarásina í Bosníuheimsókninni. Almenningur veit nánast ekkert um stefnumálin. Það versta er að frambjóðendurnir verða að taka þátt í þessum yfirborðskennda fjölmiðlaleik á kostnað málefnalegrar umræðu um stefnumál af því að meginþorri Bandaríkjamanna eru svo óupplýstur. Því miður er þetta meira í ætt við skrílræði heldur en lýðræði í Bandaríkjunum, þar sem að eina ráð fjölmiðlanna til að ná athygli fólks virðist vera að slá upp einhverjum svona æsifréttum. Verður fróðlegt að sjá til hvaða yfirborðskennda slúðurs og sleggjudóma verður gripið til þegar kosningabaráttan á milli Repúblikana og Demókrata hefst fyrir alvöru. Yfirleitt er hamrað á einhverjum einföldum yfirlýsingum frá spunameisturum á meðan reynt er að finna lágkúrulegan höggstað á andstæðingnum.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home