07 ágúst 2006

Pink Moon

Þar sem að ég tek foreldrahlutverkið gríðarlega alvarlega ákvað ég að fara með Sindra son(3 ára) minn á kaffihúsið í Máli og Menningu í gær. Þegar ég var í miðju kafi að glugga í áhugaverða bók sem ég hafði gripið í bókabúðinni, þá kallar Sindri yfir allt kaffihúsið: "Pabbi, hver var að prumpa?" Það er eins gott að veita börnunum nægjanlega athygli annars eru þau vís til þess að grípa til álíka örþrifaráða til þess að fanga hana.

Eftir að hafa yfirgefið menningarlega kaffihúsið, þá keyrðum við Suðurgötuna og sáum mann í hellilögnum sem snéri rassinum að götunni og var ekki bara með rassaskoruna upp úr buxunum, heldur allan rassinn og ljótari rass hef ég ekki séð á ævinni. Er ennþá að reyna að ná hrollinum úr mér og ákvað því að reyna að blogga mig frá þessu til þess að reyna að koma flökurleikatilfinningunni frá mér þegar þetta skýst upp í hugann eins og óvelkominn popup-gluggi.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home