12 febrúar 2006

Ef ég væri Reykvíkingur...

Þá færi ég og kysi Dofra Hermannson í prófkjöri Samfylkingarinnar í fjórða sætið.Hann er akkúrat áherslan sem hefur vantað í íslensk stjórnmál.Er hagfræðimenntaður náttúruverndarsinni, en þó alls ekki öfgafullur í afstöðu sinni.

Horfði á viðtöl við hann á NFS og í Sunnudagsþættinum á Skjá 1 þar sem Dofri var að gagnrýna ofuráhersluna á þungaiðnaðinn sem þekkingar- og þjónustufyrirtækin liðu fyrir með háu gengi íslensku krónunnar.Hann tók sem dæmi Nokia í Finnlandi og stuðninginn sem þeir fengu frá finnsku ríkisstjórninni til fjölda ára, þrátt fyrir að um 20% verðbólga hafi verið á tímabili.Ég er reyndar á því að við eigum að reyna að markaðssetja Ísland sem óspillt land, þar sem stjórnvöld leggja áherslu á þekkingar- og hátæknifyrirtæki, nýsköpun, vistvæna og lífræna framleiðslu í landbúnaðinum og hækka menntunarstigið.Þessi ímynd væri mun betri auglýsing út á við, frekar en lausgyrtar konur, hvalveiðar, erfðabreytt korn, fiskeldi og stóriðjustefna stjórnvalda.Ég er reyndar ekki alfarið á móti álverum sjálfur, en tel að umhverfisskilyrðin verði að vera miklu þrengri fyrir þeim en þau eru og ekki sé litið á þau sem einu lausnina á fólksflutningunum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, tekur í sama streng og Dofri.Ágúst sagði orðrétt að "þó að Íslendingar næðu því að komast í hóp stærstu álframleiðenda heims og virkjuðu alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis. Það er goðsögn að hagkerfið þurfi á álverum að halda til að vaxa.Þeir sem trúa því eru í raun og veru að lýsa yfir vantrausti á íslenskt atvinnulíf og getu þess til að skapa þjóðinni ný verðmæti til framtíðar.Nú stendur til að byggja ný álver og stækka þau sem fyrir eru á næstu árum og landið verður brátt eitt helsta álframleiðsluland heims.Þetta mun leiða til þess að krónan heldur styrk sínum með þeim afleiðingum að önnur íslensk iðnfyrirtæki munu flytja starfsemi sína annað."Hann benti jafnframt á að fjármálaþjónustan skili orðið álíka miklu til landsframleiðslunnar og sjávarútvegurinn.

Reyndar lýsir Egill Helgason þeim Ágústi og Hreiðari Má sem einskonar hægri grænum sem er kannski hæpið.Þeir eru bara að lýsa vanþóknun sinni á þessari ofuráherslu á þungaiðnaðinn.Hef ekkert heyrt þá lýsa umhyggju sinni fyrir nátttúrunni, en á kannski eftir að sjá eitthvað í þá áttina frá þeim.Ég sé samt ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti verið hægri grænt og bíð spenntur eftir þeirri budduvænni náttúruverndartískubylgju.Það myndi kannski breyta þeim stimpli sem náttúruvendarsinnar hafa á sér, sem ofurviðkvæmu fólki sem fylgir tilfinningunum í stað skynseminni.Þarna væru hagræn rök látin gilda og tekið tillit til sjálfbærrar þróunnar.Þ.e.a.s. að ekki yrði gengið það hart að náttúruauðlindum að næstu kynslóðir beri skaða af.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home