22 nóvember 2006

Aldrei óraði mig fyrir því þegar ég valdi GSM-númer hjá Símanum fyrir þremur árum að það ætti eftir að draga svona stóran dilk á eftir sér. Hef fengið sms og símtöl frá ýmsu fólki í þjóðfélaginu, tilboð um að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins o.s.frv. og það þrátt fyrir að ég ítreki hvað eftir annað að þessi tiltekni maður hafi skipt um símanúmer fyrir þremur árum. Það sem fer þó minnst í taugarnar á mér er móðir mannsins sem hringir reglulega, spyr hvernig ég hafi það og verður alltaf jafn forviða þegar ég segi henni að sonur hennar hafi skipt um númer fyrir löngu síðan.

08 nóvember 2006

Ísland fyrir Íslendinga?
Verð nú að segja að nýjasta útspilið hjá Magnúsi Þór Hafsteinssyni, Sigurjóni Þórðarsyni og Jóni Magnússyni hjá Frjálslynda flokknum heillar mig ekki. Ef þeirra hugmyndir verða að veruleika verður stigið á bremsuna í innflytjendamálum og forgangsraðað út frá því hvaða þjóðir eru æskilegastar sem innflytjendur á Íslandi, sem sagt handpikka þá sem væru Frjálslyndum þóknanlegir ef þeir kæmust til valda. Það væri þá kannski hægt að velja þá út frá því hvaða þjóðflokki þeir væru, trúarbrögðum, hraustir, aldri, einstæðir o.s.frv. Mjög smekklegt. Jón Magnússon beindi spjótum sínum sérstaklega að Múslimum í viðtali í Silfri Egils og talaði um Syni Allah sem hefðu myrt tvo þingmenn í Hollandi og pylsusali í Danmörku hefði verið barinn til óbóta út af því að svínakjöt hefði verið í pylsunum. Hver er tilgangurinn með svona yfirlýsingu? Er það ekki einmitt að ala á hatri og tortryggni í garð Múslima?Jón sér fyrir sér að íslensk mannréttindi og íslensk tunga líði undir lok ef flæði innflytjenda verður jafn mikið í framtíðinni. Hvað er þetta annað en hræðsluáróður? Hann heldur því fram að Synir Allah geti lifað eftir sínum siðum þvert á Stjórnarskrá Íslands eins og tíðkist víðsvegar um Evrópu.

Það væri náttúrulega heillavænlegt að Innflytjendaráð fengi einhver fjárframlög til þess að fylgja eftir góðum hugmyndum í innflytjendamálum. Það er náttúrulega spurning hvort sé hægt að neyða útlendinga sem ætla einungis að vinna hérna tímabundið til þess að ganga inn í einhvern aðlögunarpakka að íslensku samfélagi, nema þá stutta kúrsa sem lúta að réttindum og lagalegri stöðu þeirra. Meginatriðið er að uppfræða innflytjendurna um þá jákvæðu hvata sem felast í að læra íslensku og aðlagast íslensku samfélagi þannig að þeir upplifi þörfina sem sjálfsprottna frekar en þvingaða. Það væri hægt að gera með því að bjóða upp á einhverjar ívilnanir eða umbanir í stað þess að skylda innflytjendur til að fara á námskeið og sýna árangur. Náttúrulega væri út í hött að þeir þurfi að gefa sína menningu og siði upp á bátinn, enda getur það auðgað íslenskt samfélag til lengri tíma litið. Það er líka spurning hvað við skilgreinum sem hreinræktaðan Íslending? Erum við ekki öll blendingar meira og minna?Það að innflytjendurnir vinni fyrir lægri laun er örugglega rétt upp að vissu marki, en er ekki hægt að girða fyrir það með góðu eftirliti? Það góða við þessa umræðu er að þetta ýtir við stjórnvöldum í að standa sig betur í að taka á móti innflytjendum á skipulagðari hátt og leggja aukið fjármagn í þann pakka. Enn fremur þurfa stjórnvöld að gera upp við sig hvernig þau ætli að bregðast við þegar framkvæmdirnar á landinu dragast saman.