30 janúar 2006

Once Abnormalities(uppfært)

Tek hér fyrir lög sem eru að virka á mig þrátt fyrir að passa ekki inn í tónlistarrammann hjá mér.

Toxic-Britney Spears
Frábært lag með Britney.Myndbandið skemmir ekki fyrir.

Wake Me Up Before You Go-Go-Wham
Tengi þetta sterkt við bensíndælu-atriðið í Zoolander-myndinni.

Want You Back For Good-Take That
Robbie Williams og félagar fara á kostum í ýktum svipbrigðum í rigningunni.Óborganlegt.

Eternal Flame-Bangles
Sé fyrir mér Þorgrím yngri bróður minn syngjandi með ryksuguna þegar hann var fimm ára.

Shiver-Natalia Imbruglia
Sé fyrir mér draumagelluna í flottu myndbandi.Hún kann líka að semja grípandi lög með góðum textum.Wrong Impression og Torn eru líka góð með henni.

Everybody Wants To Rule The World-Tears For Fears
Einhver nostalgíu-stemmning tengd þessu lagi.

Mama Said-Lenny Kravitz
Funky.

More Than This-Roxy Music
Sykursætt? Já. Virkar það á mig? Já.

Amazing-George Michael
Lag sem vinnur á með hverri hlustun.Þorsteinn yngsti bróðir minn kolféll fyrir þessu lagi.

Footloose-Kevin Bacon
Já, þetta verður bara að fljóta með.Þarf að horfa á þessa mynd aftur við tækifæri.

Can´t Get You Out Of My Head-Kylie Minogue
Ofurdruslan frá Ástralíu kemur með ágætis smelli inn á milli.
Tyggjóvision


Horfði á Eurovision-forleikinn á föstudagskvöldið á RÚV með öðru auganu(sem stafaði eingöngu af því að ég týndi annarri linsunni:).Skrítin ákvörðun hjá RÚV að taka þetta af dagskrá og skella lagi í Söngvakeppnina án forkeppni eitt árið með hjálp fámennrar dómnefndar. Koma síðan með fullu trukki á þessu ári og hafa ekki eitt forkeppniskvöld, heldur mörg kvöld á besta tíma í sjónvarpinu með gríðarlegum tilkostnaði.Ætla væntanlega að hala inn peninga á SMS-kosningu.Öll lögin fyrir neðan meðallag.Það eina sem hélt mér vakandi yfir þessu var kynþokkafyllsti maður ársins sem virtist alltaf við það að bresta í söng þegar hann kynnti lögin.Gef honum prik fyrir skemmtilega frammistöðu.Skyldi þó aldrei trikkið hjá honum að hafa óhnepptan jakkann framan af í þættinum, en hneppa honum þegar úrslit kvöldsins lágu fyrir.Maður spyr sig líka hversu áhugaverð keppni er þegar hnepping og tilgerðarlegur kynnir er orðinn áhugaverðari en keppnin sjálf.Hverjir komust aftur áfram?
Sögumannsrödd


Það er eitthvað við röddina hjá Hallgrími Thorsteinssyni útvarpsmanni sem fær mig alltaf til þess að leggja við hlustirnar þegar hann talar og viðmælendur hans að sleppa því að grípa fram í fyrir honum.Verst að hann hefur sjaldnast eitthvað merkilegt að segja og ég með svo lélegt minni að ég sperri alltaf eyrun þegar hann opnar munninn.
Such a Rush


Fór að pæla í sjónvarpsglápi, netfíkn, matarfíkn, alkóhólisma o.s.frv. Getur verið að það sé lögð of lítil áhersla á að fólk leiti að lífsfyllingu í umræðunni um fíknirnar? Það er ekki nóg að taka út eina fíkn, ef ekkert annað fyllir upp í tómarúmið. Gæti verið að við séum að verða steingeld í hugsun á allri mötuninni og gerviþörfunum sem er búið að koma inn hjá okkur með auglýsingum og útlitsdýrkun? Er sjálfur forfallinn endorfín-dópisti, en mun halda mig við það á meðan ekkert annað betra býðst þó að eflaust sé það einhverskonar raunveruleikaflótti. Fann reyndar í svari á Vísindavefnum að það sé talið að sumir einstaklingar sem hafa arfgenga tilhneigingu til misnotkunar á áfengi eða ýmiskonar lyfjum séu með óvenjulítið endorfínmagn í líkamanum. Þess má geta í restina að þetta er mynd af alpha-endorfíni hér fyrir ofan.

18 janúar 2006

(uppfært)
Ég vil að einhver af íslensku sjónvarpsstöðvunum fari að sýna The Daily Show með Jon Stewart. Hrein snilld hvernig hann dregur bandarísk stjórnvöld sundur og saman í háði. Við vinnufélagarnir sendum fyrirspurnir á Sirkus og Skjá1 um hvort ekki væri hægt að skjóta þessum þætti inn í dagskrána hjá þeim.

17 janúar 2006




Monologue
Fór í Perluna í dag með dóttur mína, sem er svo sem ekki í frásögur færandi, nema við fórum að spjalla um teiknimyndasögur. Amman síblaðrandi kom til tals og minntist þá dóttirin á að hún væri ekki gott efni í teiknimyndasögu, í mesta lagi væri mynd af henni á forsíðunni og eintómar talblöðrur fylltu blaðsíðunar út bókina. Inn á milli kæmi í mesta lagi innskotsorð hinna söguhetjanna sem væru að reyna að komast að.
Skrítið viðtalið við Gunnar Smára, forstjóra Dagsbrúnar, í Kastljósinu.Hann sagði að hann væri svo lélegur skákmaður að hann hefði aldrei neitt plan B, þegar hann var spurður hvort hann hefði eitthvað hugsað út í hvað ætti að gera næst eftir að reiðialdan skall á DV.Ekki traustvekjandi að hafa svona mann í brúnni fyrir móðurfélag 365 miðla og OGVodafone.Náttúrulega er best að gera ráð fyrir því að allt gangi í haginn og ekkert breytist á síbreytilegum markaði.Gunnar Smári á að stýra sókn Dagsbrúnar á erlenda markaði.Gott að hafa ekkert planB, ef allt gengur ekki samkvæmt áætlun.

15 janúar 2006


Hef verið að hlusta á stórkostlega söngkonu undanfarið sem heitir Sam Phillips. Getið smellt á efsta linkinn hægra megin ef þið viljið hlusta á nokkur lög með henni.Tveir síðustu diskarnir hennar, A Boot and a Shoe og Fan Dance, eru á leiðinni til mín.
When I was younger I could remember everything, whether it happened or not.-Mark Twain.

Hef svolítið verið að hruxa um hversu áreiðanlegar minningar eru. Eru minningarbrot sönn, sníðum við þau til eftir hentugleika eða er þetta eins og munnmælasaga sem breytist stig af stigi því oftar sem við rifjum hana upp? Búum við jafnvel til minningar um eitthvað sem gerðist aldrei? Hvaða minningar veljum við til þess að rifja upp og hverjum sleppum við? Er möguleiki að fólk rugli stundum saman minningum og draumum? Hmmm, vert að hruxa um þetta.

13 janúar 2006

Skrítið hvað ég næ mikilli slökun í veðri eins og var í morgun. Kannski er ég sveimhugi, en mér líður sjaldan betur en þegar veðrið fer út í öfgar. Keyrandi í ófærðinni á heilsársdekkjunum komst ég í ótrúlega slakandi hugarástand við að hlusta á Katie Melua syngja Just Like Heaven, þó að ég væri orðinn þremur kortérum of seinn á morgunfundinn í vinnunni.

07 janúar 2006


Hef verið að lesa fyrstu bókina um Artemis Fowl undanfarið. Hentar vel fyrir mann með ofurlitla sneið af ofvirkni léttkryddaða með athyglisbresti. Mér skilst að það styttist í kvikmyndir um ævintýri Artemis Fowl og munu þær örugglega slá í gegn þar sem um mjög kvikmyndavænar sögur er að ræða. Fyrstu myndinni mun verða leikstýrt af Larry Guterman og framleiðandi Robert De Niro.

05 janúar 2006

Ættarsvipur?

03 janúar 2006


If Christ were here now there is one thing he would not be - a Christian. Mark Twain

Fór að spekúlera í allri þessari umræðu um samkynhneigða sem hefur verið í gangi í þjóðfélaginu um hvort að kirkjan eigi að leyfa hjónavígslur samkynhneigðra. Nú vil ég samt taka það fram að ég er lítið sem ekkert lesinn í Nýja testamentinu. Þeir sem eru á móti vígslunum benda á að það standi skýrum stöfum í Biblíunni að hjónaband sé heilagt samkomulag karls og konu. Þetta sé ekki hægt að túlka á annan hátt. Í Gamla testamentinu er Páll postuli umburðarlyndur gagnvart þrælahaldi. Páll sendi þræl aftur til húsbónda síns og gaf ráð um hvernig þeir ættu að umgangast hver annan. Jesús fordæmdi það aldrei. Í Nýja testamentinu kemur það berlega fram að Jesús fordæmdi skilnaði. Einnig er ýtt undir kynjamisrétti. Í Ephesians 5:22 segir að konur eigi að vera undirgefnar eiginmönnum sínum líkt og Guði. Hvernig stendur á því að kirkjunnar menn sniðganga margar kennisetningar Nýja testamentisins? Það er einfaldlega vegna þess að þegar kristilegir siðir og textar Biblíunnar stangast á, þá endurtúlkar kirkjan Biblíuna. Kirkjunnar menn segja þá að textinn hafi einfaldlega verið misskilinn eða vitlaust þýddur eða að annað hafi átt við á vissum tímum eða við vissar aðstæður. Hvernig breytist hugarfar kristinna manna? Gæti það verið vegna þess að kirkjunnar menn fari að upplifa ákveðna mótsögn í því hvað þeir túlka sem kristilegt og þess sem er að gerast í kringum þá? Ef þrælahaldið er tekið sem dæmi, þá fór fólk smám saman að sjá þversögnina sem fólst í því að lifa kristilegu lífi annars vegar og samþykkja þrælahald hins vegar. Breytingar verða ekki vegna deilna um texta Biblíunnar eða kennisetninga, heldur hvernig fólk upplifir það hvað felst í því að vera kristin. Það gerist þegar kirkjan fylgir ekki samfélagsþróuninni. Við heyrum um að illa sé farið með þræla og er misboðið. Við sjáum að dætur okkar hafi takmörkuð tækifæri vegna kynferðis og verðum kvenréttindasinnar. Vinir og ættingjar lenda í skilnaði og verða fyrir barðinu á þröngsýni kirkjunnar. Reynslan, hugarfarið og upplifunin á aðstæðunum er hreyfiaflið á bak við breytingar innan kirkjunnar. Er hræðsla kirkjunnar manna við hjónavígslu samkynhneigðra ekki komin vegna þeir að þeir telja þá grafi það undan grunnstoðum kirkjunnar í raun af svipuðu bergi brotin og tilkoma þróunarkenningarinnar á sínum tíma og að jörðin sé hnöttótt, en ekki flöt? Í eðli sínu er nefnilega kirkjan gríðarlega íhaldssöm. Hvað er það sem stendur eftir þegar er búið að endurtúlka Biblíuna og sníða hana til eftir þörfum hvers tíma? Það er grunnheimspeki hennar um náungakærleik, virðingu og ást. Ég sé ekki að Biblían frekar en aðrar skáldsögur eigi að vera hafin yfir endurtúlkun og gagnrýni. Hversu margir hafa komið að ritum hennar í gegnum aldirnar, ákveðið hvaða köflum á að sleppa og hvað beri að leggja áherslu á? Hvað myndi Jesús sjálfur segja um þessa túlkun? Mér finnst persónulega margt gott í boðskap kristinnar trúar, en að hengja sig í einhverjum smáatriðum eins og hjónavígslu samkynhneigðra út af margyfirfarinni skáldsögu finnst mér einfaldlega vera að ganga of langt. Eftir því sem ég eldist held ég að einlæg trú barna á Guð, án orðskrúðs, málalenginga og án þess að festa sig í smáatriðum Biblíunnar sé farsælust. Ég held að bókstafstrúarmenn séu hættulegustu andstæðingar trúarbragðanna. Þeir spyrja sig aldrei grundvallarspurninga um hefðir og það sem er talið gefið, heldur láta mata sig án þess að beita gagnrýnni hugsun.

Tekið skal fram að höfundur greinarinnar er ekki í Þjóðkirkjunni, en sér þó margt gott við hana.