12 febrúar 2006

Ef ég væri Reykvíkingur...

Þá færi ég og kysi Dofra Hermannson í prófkjöri Samfylkingarinnar í fjórða sætið.Hann er akkúrat áherslan sem hefur vantað í íslensk stjórnmál.Er hagfræðimenntaður náttúruverndarsinni, en þó alls ekki öfgafullur í afstöðu sinni.

Horfði á viðtöl við hann á NFS og í Sunnudagsþættinum á Skjá 1 þar sem Dofri var að gagnrýna ofuráhersluna á þungaiðnaðinn sem þekkingar- og þjónustufyrirtækin liðu fyrir með háu gengi íslensku krónunnar.Hann tók sem dæmi Nokia í Finnlandi og stuðninginn sem þeir fengu frá finnsku ríkisstjórninni til fjölda ára, þrátt fyrir að um 20% verðbólga hafi verið á tímabili.Ég er reyndar á því að við eigum að reyna að markaðssetja Ísland sem óspillt land, þar sem stjórnvöld leggja áherslu á þekkingar- og hátæknifyrirtæki, nýsköpun, vistvæna og lífræna framleiðslu í landbúnaðinum og hækka menntunarstigið.Þessi ímynd væri mun betri auglýsing út á við, frekar en lausgyrtar konur, hvalveiðar, erfðabreytt korn, fiskeldi og stóriðjustefna stjórnvalda.Ég er reyndar ekki alfarið á móti álverum sjálfur, en tel að umhverfisskilyrðin verði að vera miklu þrengri fyrir þeim en þau eru og ekki sé litið á þau sem einu lausnina á fólksflutningunum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.

Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar, tekur í sama streng og Dofri.Ágúst sagði orðrétt að "þó að Íslendingar næðu því að komast í hóp stærstu álframleiðenda heims og virkjuðu alla hagkvæmustu virkjunarkosti landsins myndi arðsemi þess og hagur fyrir íslenskt samfélag aldrei verða meiri en sem nemur framlagi eins öflugs útrásarfyrirtækis. Það er goðsögn að hagkerfið þurfi á álverum að halda til að vaxa.Þeir sem trúa því eru í raun og veru að lýsa yfir vantrausti á íslenskt atvinnulíf og getu þess til að skapa þjóðinni ný verðmæti til framtíðar.Nú stendur til að byggja ný álver og stækka þau sem fyrir eru á næstu árum og landið verður brátt eitt helsta álframleiðsluland heims.Þetta mun leiða til þess að krónan heldur styrk sínum með þeim afleiðingum að önnur íslensk iðnfyrirtæki munu flytja starfsemi sína annað."Hann benti jafnframt á að fjármálaþjónustan skili orðið álíka miklu til landsframleiðslunnar og sjávarútvegurinn.

Reyndar lýsir Egill Helgason þeim Ágústi og Hreiðari Má sem einskonar hægri grænum sem er kannski hæpið.Þeir eru bara að lýsa vanþóknun sinni á þessari ofuráherslu á þungaiðnaðinn.Hef ekkert heyrt þá lýsa umhyggju sinni fyrir nátttúrunni, en á kannski eftir að sjá eitthvað í þá áttina frá þeim.Ég sé samt ekkert því til fyrirstöðu að fólk geti verið hægri grænt og bíð spenntur eftir þeirri budduvænni náttúruverndartískubylgju.Það myndi kannski breyta þeim stimpli sem náttúruvendarsinnar hafa á sér, sem ofurviðkvæmu fólki sem fylgir tilfinningunum í stað skynseminni.Þarna væru hagræn rök látin gilda og tekið tillit til sjálfbærrar þróunnar.Þ.e.a.s. að ekki yrði gengið það hart að náttúruauðlindum að næstu kynslóðir beri skaða af.
Deja vu

Þegar ég keyrði á nýja umhverfisvæna bílnum mínum á Reykjanesbrautinni þá lenti ég á eftir bíl sem keyrði löturhægt og það fyrst sem mér datt í hug var gamall maður með hatt.Hvað haldið þið að hafi verið það fyrsta sem ég hafi tekið eftir þegar ég tók fram úr bílnum? Hann var með hatt og nákvæmlega eins og ég hafði ímyndað mér að hann liti út.Skemmtileg tilviljun.

Síðar um daginn var ég að hlusta á þátt sem heitir Outlook á BBC World Service og þar var verið að tala um Deja vu-upplifanir hjá fólki.Margskonar skýringar komu á þessu fyrirbrigði, allt frá því að fólk hafi lifað mörgum lífum í að heilinn væri að gabba fólk.Mér finnst reyndar líklegasta skýringin að í öllu áreitaflóðinu sem demba á skynfærunum dags daglega, sé alltaf stór hluti sem sé skráist á einhvern hátt ómeðvitað með snertingu, lykt, sjón o.s.frv..Það er þessi ómeðvitaða upplýsingaskráning sem endurheimtist síðan þegar við upplifum Deja vu-ið.Við upplifum þessa skrýtnu tilfinningu af því að hún passar ekki saman við meðvitað skráðu upplýsingarnar og skynjunina.Það eru bara mismunandi kveikjur að því að við upplifum þetta sem Deja vu, hvort sem það er löturhægur bíll, eitthvað sem við höfðum hugsað okkur að gæti gerst en munum ekki eftir því, frásögn, kunnugleg lykt o.s.frv.

03 febrúar 2006

Vefblöð

Eru rafræn blöð handan við hornið? Ég man hvað mér fannst þetta áhugavert þegar ég sá fyrst bregða fyrir vefblaði í Minority Report-myndinni með Tom Cruise.Miðað við það sem ég er að lesa um Siemens og svokölluð e-blöð gæti það gerst 2008, en í síðasta lagi 2015.Siemens eru komnir nokkuð langt í að búa til sveigjanleg vefblöð í lit.Hægt væri að vöðla þeim saman og setja þau undir handarkrikann eins og venjulegt dagblað.Þau yrðu örlítið þykkari en dagblöð, aðeins minni gæði en í sjónvörpum og flatskjám og eru tiltölulega ódýr í framleiðslu.Þau yrðu það ódýr í framleiðslu að eftir nokkur ár yrðu þau gefin frí þar sem að það yrði svo fljótt að borga sig fyrir útgefendurna.Ef við tökum Reykjavík sem dæmi, þá eru heitu reitirnir alltaf að verða fleiri og að lokum gæti höfuðborgarsvæðið að minnsta kosti orðið einn heitur reitur.Ímyndið ykkur að geta keypt áskriftir eða stök eintök af uppáhaldsblaðinu og lesið það online á sveigjanlegum skjá á stærð við dagblað.Þetta yrði líka sniðugt fyrir auglýsendur þar sem að hægt væri að skoða auglýsingar nánar með því að klikka á þær.Fréttirnar myndu uppfærast samtímis og fréttamenn setja þær inn.Hægt væri líka að hlaða inn á netblaðið úr tölvunni heima hjá sér.Þessar fréttir gleðja mitt náttúruverndarhjarta gríðarlega mikið og myndu aðeins draga úr öllu pappírsflóðinu sem flæðir inn um bréfalúguna á hverjum degi.
Óli garlakarl


Mikið er ég stoltur af landsliðinu í handbolta.Þeir spiluðu með hjartanu allan tímann, en það kom þó í bakið á þeim að það vantaði ofurlítið upp á breiddina.Landsliðið má einfaldlega ekki við neinum meiðslum í þeim 10-11 manna kjarna sem spila mest.Það er bara svo einfalt.Yndislegt að sjá Óla Stefáns setja upp hverja flugeldasýninguna af annarri og njóta þess í botn.Hann er göldröttur drengurinn og vona ég að hann eigi eftir nokkur ár eftir með landsliðinu.Okkur ber líka að vera þakklát Viggó þjálfara sem lætur þá spila gríðarlega skemmtilegan handbolta.Held samt að það sé kominn tími á að æfa upp almennilega markverði frá grunni upp á framtíðina.